Ný teiknimyndasería í Sjónvarpi Símans Premium!

Teiknimyndaþáttaröðin Ævintýri Tulipop er komin í Sjónvarp Símans Premium! Við kynnum stolt 13 þætti þar sem hver þáttur er 7 mínútur að lengd.

„Ævintýri Tulipop“ fjallar um fjölbreytileikann og vináttuna á ævintýraeyjunni. Í þáttunum fylgjumst við með Fredda, sveppasystkinunum Búa og Gló, Maddýju og ekki má gleyma Herra Barra sem er elstur og vitrastur allra á Tulipop. Á Tulipop eru kvenpersónur sterkar og staðalímyndir ekki til. Enginn er fullkominn, allir hafa sína kosti og galla og það sem mestu máli skiptir er kærleikurinn og vináttan. Hver þáttur er fullur af fjöri, óvæntum og fyndnum uppákomum og við fylgjumst með vinunum læra um lífið og tilveruna, hvort annað og síðast en ekki síst eyjuna sjálfa.

 

Þáttur 1 - Fjársjóðsleit

Gló og Freddi eru í ævintýraleit á ströndinni þegar þau koma auga á nýja eyju rétt við fjöruborðið. Þau ákveða að flýta sér þangað í von um að finna fjársjóð. Búi kemur auga á þau þegar hann og Maddý eru að koma sér fyrir í sólbaði á ströndinni. Hann uppgötvar að eyjan er alls ekki eyja heldur strandaður einhyrningshvalur! Hann verður að komast til þeirra og hjálpa þeim að bjarga hvalnum.

Þáttur 2 - Náttljós

Búa tekst að búa til risastórt fallegt náttljós úr húsinu sínu. Það er undur fallegt og lýsir upp nóttina. En þegar Búi vaknar morguninn eftir er allt annað upp á teningnum. Náttljósið hefur laðað til sín her gúmmígúbbakríla, sem þekja allt húsið. Gúmmígúbbakrílin, sem samkvæmt Herra Barra, laðast að ljósi, hafa villst af leið og vinirnir þurfa að finna leið til að hjálpa þeim aftur í Nátthellana, til síns heima.

Þáttur 3 - Múlahalasúlan

Hlutir byrja að hverfa á Tulipop á dularfullan hátt. Grunur beinist að Fredda þegar Gló, Búi og Maddý finna hlutina sína heima hjá honum. En annað kemur á daginn þegar vinirnir finna greni hinnar goðsagnarkenndu Múlahalasúlu.

Þáttur 4 – Óskatré

Norðuljósin senda frá sér dularfullt fræ sem lendir á Hauskúpuhæð, hjá Herra Barra, og upp vex töfraóskatré. Óskirnar vefjast ekki fyrir Fredda, Gló og Maddýju, þau vita upp á hár hvers þau ætla að óska sér. Búi á hins vegar erfitt með að gera upp hug sinn. Óskir hinna þriggja hafa slæmar afleiðingar í för með sér og Búi, sem á enn eftir að óska sér, bjargar málunum.

Þáttur 5 – Kítlukrútt

Óvelkomnir gestir gera vart við sig á höfði Fredda. Það eru Kítlukrútt! Litríkir, loðnir hnoðrar sem kitla svakalega! Vinirnir reyna allt sem í þeirra valdi stendur til að losa Fredda við óværuna en án árangurs. Það er ekki fyrr en Freddi fær ráð hjá Herra Barra sem þau ná að leysa vandamálið....eða hvað?  

Þáttur 6 – Leyniskógur

Sveppasystkinin Búi og Gló villast í helli og rifja upp þegar þau villtust af leið í berjatýnsluleiðangri í Leyniskóginum. Þar lentu þau í óvæntu en jafnframt mjög skemmtilegu ævintýri, borðuðu boltaber (stærstu og safaríkust ber á allri Tulipop) og eignuðust nýjan vin.

Þáttur 7 – Feluleikur

Vinirnir eru í feluleik í Leyniskógi þar sem allt er á kafi í snjó. Eina vandamálið er að Freddi kann ekki að fela sig. En viti menn, þegar Freddi gerir lokatilraun til þess að fela sig bak við stórt tré fellur á hann snjódyngja. Hann hefur fundið hinn fullkomina felustað! Nú þarf hann bara að reyna hafa hljótt um sig og standa grafkyrr...

Þáttur 8 – Sundlaugarpartý

Maddý ákveður að halda sundlaugarpartý og er harðákveðin í því að allt í partýinu skuli vera bleikt, þar með talin laugin í garðinum hennar. Gló kemur henni til aðstoðar og býr til bleika baðbombu fyrir laugina. Maddý er hæstánægð með útkomuna þar til í ljós kemur að baðbomban hefur ekki aðeins litað laugina hennar bleika...heldur alla Tulipop eyjuna og þar með talinn Herra Barra!

Þáttur 9 – Loðgeir

Litlir gosbrunnar byrja að gusast upp á víð og dreif í garðinum hans Búa og þegar  betur er að gáð sést að ekkert vatn rennur lengur í stóra fossinum. Vinirnir ákveða að rannsaka málið og komast að því að tröllið Loðgeir hefur orðið að steini og stíflað vatnsuppsprettuna. Það eina sem getur breytt tröllinu aftur í sitt fyrra horf er tröllasólsteinn. Herra Barri kemur þeim til bjargar og Búi býður öllum heim í pönnukökur....hver vissi að tröllum þættu pönnukökur svona góðar?

Þáttur 10 – Sætaspæta

Sætasti fuglinn á allri Tulipop hefur villst af leið og virðist ekki getað flogið. Freddi og Gló þurfa að hjálpa honum að fljúga svo að ekkert komi fyrir hann. Þau ákveða að klífa hátt fjall og hitta þar aðra sætuspætu. Það verða miklir fagnaðarfundir þegar sætuspæturnar hittast og fljúga að lokum saman á braut inn í tunglskinið.

Þáttur 11 – Týnda skikkjan

Þegar Freddi mætir grútskítugur í lautarferð vinanna í Leyniskóginum ákveður Gló að baða hann í laug skammt frá. En á meðan Gló skrúbbar Fredda hátt og lágt hverfur dýrmæta skikkjan hennar. Gló er alveg eyðilögð og finnst hún vera algerlega hjálparvana án hennar. Freddi fer með henni að leita að skikkjunni og Gló kemst að því að hún getur nú ýmislegt þó skikkjuna vanti.

Þáttur 12 – Kálhausaklúður

Búi hefur áhyggjur af því hversu litlir kálhausarnir í kálhausagarðinum hans eru. Gló býðst til prófa stækkunarseyðið sitt á þeim. Búi leyfir henni að prófa, en aðeins á einn kálhaus til að byrja með. Stækkunarseyði Glóar virkar einum of vel því kálhausinn verður gríðarstór með skelfilegum afleiðingum. Gló þarf að finna mótefnið en það gæti tekið smá tíma.

 

Þáttur 13 – Grautur

Krákutá byrjar að gjósa áður en Gló nær að klára að búa til nýja-húsa-seyðið sitt. Hafragrautur vellur úr Krákutá og yfir hús Glóar. Gló hefur engar áhyggjur enda nýja-húsa-seyðið næstum því tilbúið. Hún flytur inn til Búa bróður síns til þess að klára að útbúa seyðið. Seyðismallið gengur frekar brösulega þangað til að Búi kemur henni til bjargar og í sameiningu tekst þeim að lokum að malla splúnkunýtt og hárnákvæmt húsa-seyði.