Um okkur
Tulipop er íslenskur ævintýraheimur fyrir börn sem hefur notið mikilla vinsælda um áraraðir. Krakkar um allan heim geta í dag kynnst Tulipop heiminum og persónum hans í gegnum vandaðar teiknimyndir, bækur, tónlist, og fjölbreytt úrval af fallegum vörum.
Ævintýraheimurinn Tulipop og persónurnar sem þar búa eru skapaðar af Signýju Kolbeinsdóttur, vöruhönnuði og teiknara sem sem byrjaði eftir útskrift úr listaháskóla að teikna litríkar verur og heima sem hún lét prenta á póstkort, boli og skissubækur. Teikningar og vörur Signýjar fengu góðar viðtökur og slógu í gegn í hönnunarverslunum á Íslandi.
Og fljótt kom í ljós að Tulipop heimurinn og persónurnar sem þar búa höfða sérstaklega til krakka sem vildu kynnast þeim betur og vita meira um þær.
Þessar góðu viðtökur leiddu til þess að árið 2010 ákváðu Signý og vinkona hennar, Helga Árnadóttir, að stofna fyrirtæki í kringum heiminn sem Signý var byrjuð að skapa, með það að markmiði að búa til séríslenskt hugverk sem gæti náð til barna um heim allan.
Markmið Signýjar og Helgu hefur frá upphafi verið að búa til vandaðan, fallegan og ekki síst skemmtilegan heim þar sem krakkar kynnast ævintýrum, læra um mikilvægi vináttunnar og fjölbreytileikans, og stuðla um leið að forvitni og sköpun.